Anna - Að komast í form eftir meðgöngu


Á Spáni 9 mánuðum eftir að ég átti

Ég er búin að lofa þessari færslu í töluverðan tíma og hér kemur hún loksins. Þessi skrif eru langt út fyrir minn þægindaramma enda persónulegri en önnur blogg frá mér.

Ég hef alla tíð hreyft mig mikið og borðað hollt að staðaldri enda er það undirstaða þess að mér líði vel, bæði líkamlega og andlega. Þegar ég verð svo ólétt í árslok 2016 lofaði ég sjálfri mér að borða hollt og hreyfa mig reglulega alla meðgönguna svo ég þyrfti nú ekki að hafa mikið fyrir því að losna við allt meðgönguspikið! Það er óhætt að segja að ekki varð mikið úr þessu loforði, ég fékk rosalega klígju fyrir kjöti og allri almennri hollustu og það eina sem mig langaði í alla meðgönguna var brauð, KFC og Cocoa Puffs. Fyrstu 25 vikurnar hreyfði ég mig 3-4x í viku og tók léttar brennslu- og styrktaræfingar. Eftir 25 viku fór ég þó að minnka komur mínar í ræktina og fór frekar út að ganga. Sindri var duglegur að koma með mér í kvöldgöngur en mér fannst það hjálpa mikið til við að sofna á kvöldin (það getur verið erfitt að koma sér fyrir með bolta framan á sér, þið þekkið þetta einhverjar). Ég átti tiltölulega auðvelda og góða meðgöngu en ég held að það hafi hjálpað mér mikið að hafa verið í ágætis formi áður en ég varð ólétt. Ég þyngdist um 14 kg sem á að vera alveg eðlilegt og ég hafði litlar áhyggjur af því. Ég leyfði mér að njóta meðgöngunnar í botn og setti enga pressu á mig sjálfa enda er þetta dýrmætur tími og seinni tíma vandamál að komast í form aftur.

Viku fyrir fæðingu, komin 37 vikur

Ég byrjaði svo að hreyfa mig þegar Hinrik var 5-6 vikna en þá var ég tilbúin bæði líkamlega og andlega.

Hann var þó mjög krefjandi á brjóstið fyrstu vikurnar og var því erfitt fyrir mig að komast í ræktina. Ég hafði enga auka mjólk til að pumpa og vildi ekki að hann fengi þurrmjólk ef hægt væri að komast hjá því, aðallega vegna þess að ég vildi ekki missa úr gjöf þar sem enn var ójafnvægi á mjólkurframleiðslunni. Tengdaforeldrar mínir voru svo yndislegir að lána mér þrekhjól sem stóð ónotað hjá þeim svo í staðinn fyrir ræktina gat ég æft heima á meðan Hinrik svaf. Ég fékk mér svo lóð, bæði 3 kg og 5 kg, ásamt teygjum og dýnu frá Hreysti. Með þessu gat ég tekið góðar heimaæfingar en var til staðar ef Hinrik vaknaði og vildi drekka. Ég stressaði mig þó aldrei á því að ná æfingu enda voru dagarnir fyrstu mánuðina aldrei eins og stundum var ég dauðþreytt eftir miklar andvökunætur. Mamma og pabbi voru dugleg að segja við mig "sofðu þegar barnið sefur" og fylgdi ég þessu alltaf þegar mér fannst ég þurfa á því að halda. Ég var mjög meðvituð um að nýta tímann í að leggja mig með Hinriki á daginn ef ég var þreytt í stað þess að æfa og pína mig áfram.

Þegar maður er kominn með barn er tíminn allt í einu orðinn svo mikið dýrmætari en áður. Það sem einu sinni voru tveggja tíma æfingar voru allt í einu orðnar 30-60 mínútur, allt eftir því hversu lengi Hinrik svaf. Þarna var ég farin að læra að nýta hverja einustu mínútu vel og náði mér meðal annars í SWEAT appið frá Kayla Itsines þegar Hinrik var 6 vikna. Æfingarnar hennar eru 28 mínútur og maður er á fullu allan tímann. Ég byrjaði á að styðjast við "Post Pregnancy" æfingaplönin og þegar ég var komin vel af stað fór ég að færa mig yfir í "BBG Stronger". Ég mæli hiklaust með þessu appi fyrir allar nýbakaðar mæður sem vilja koma sér í gang eftir barnsburð. Æfingarnar eru fjölbreyttar og henta vel til að taka heima sem og í ræktinni. Ég var ekki með neitt sérstakt markmið og vigtaði mig aldrei en fór þó fljótt að sjá mun. Um það leiti sem við skírðum Hinrik (10 vikna) var ég komin í nokkuð gott form en þarna var ég að æfa um 3-4x í viku. Þessar æfingar samanstóðu af æfingum úr SWEAT appinu og brennslu á hjólinu í 30-60 mínútur, allt eftir því hverju ég nennti hverju sinni. Ég byrjaði einnig að fylgja nokkrum Instagram síðum sem einblína á heimaæfingar og tók oft 5-6 æfingar saman sem ég fann þar inná. Úr þessum æfingum gerði ég æfingahring sem ég tók 3-5x, allt eftir því hversu erfiður hringurinn var.

2 vikum eftir fæðingu vs 4 mánuðum eftir fæðingu

Mataræðið er svo að sjálfsögðu mikilvægur partur af því að ná árangri. Eftir mikið skyndibita og nammiát fyrstu 6 vikurnar eftir fæðingu fór ég aðeins að taka til í mataræðinu. Ég fór ekki út í neinar öfgar og borðaði vel til að viðhalda mjólkinni. Það sem var áður voru grillaðar samlokur í hádeginu urðu flatkökur með hummus, kjúklingaskinku og avocado. Svona reyndi ég að skipta því sem mér fannst gott út fyrir hollari valkosti sem eru ekkert síðri. Þurrkaður mangó kom í staðinn fyrir kex og annað óhollt nasl en þar sem ég er mikill sætindagrís fannst mér nauðsynlegt að eiga próteinbari eða suðusúkkulaði til að grípa í. Þrátt fyrir að borða hollt yfir höfuð neita ég mér ekki um neitt, ég fæ mér það sem mig langar í óháð því hvaða dagur er. Í kjölfarið borða ég minni sætindi um helgar og missi mig síður þegar ég fæ mér eitthvað óhollt.

Það eru örugglega margar sem finnast þær aldrei munu verða samar eftir meðgöngu og ég var ein af þeim. Mér leið eins og ég væri ekki í mínum eigin líkama og fannst ég öll mjúk og slöpp. Magavöðvarnir fóru einnig mikið í sundur hjá mér og hefur það tekið tíma að ganga til baka. Í stað þess að standa löngum stundum fyrir framan spegil og draga mig sjálfa niður þá byrjaði ég frekar að hrósa mér fyrir allt hitt sem ég var ánægð með. Það tengdist ekkert endilega útliti, þetta voru til að mynda hlutir eins og að hafa komið heilbrigðu barni í heiminn. Með tímanum fann ég hvað hugarfarið breyttist, ég var allt í einu hætt að spá svona mikið í hliðarspikinu eftir meðgönguna og hugsa meira um hluti sem skipta meira máli í stærra samhenginu. Þetta hljómar kannski væmið fyrir marga en ég fór allt í einu að meta lífið á annan hátt og í dag finnst mér það tímasóun að setja stanslaust út á mig sjálfa. Það mun alltaf vera mér mikilvægt að líta vel út en ef það felur í sér niðurrif og vanlíðan þá er ég einfaldlega að gera eitthvað rangt. Með jákvæðu hugarfari, hreyfingu og hollu mataræði komst ég í besta form lífs míns og hefur mér aldrei liðið betur í eigin skinni en einmitt núna.

- Anna x

*Ég tek það fram að ég er ekki menntuð í næringu né hreyfingu, þetta er einungis lýsing á því sem virkaði fyrir mig.


YKKUR ER VELKOMIÐ AÐ FYLGJAST MEÐ OKKUR HÉRNA!

  • Black Instagram Icon

@MAMIITA_COM

  • Black Snapchat Icon

@MAMIITA.COM

RECENT POST