Karen Mjöll - Flórídaferð með 6 mánaða

Við fjölskyldan fórum til Flórída eins og einhver ykkar hafa kannski séð á snapchat og instagram. Við vorum 9 saman í stóru húsi sem var æðislegt.

Þetta var fyrsta flugferðin okkar með Önju Myrk og var ég frekar mikið stressuð aðalega af því ég er mjög flughrædd, maður hefur heyrt að maður verði lífshræddari eftir að maður eignast börn og ég fann svo sannarlega fyrir því í fluginu. Ég hef versnað helling síðan áður en ég átti. Þegar við setjumst inní flugvél sé ég gamla vinkonu mína í flugfreyju juniformi - VÁ hvað mér leið vel að vita að vinkona mín væri að fljúga með okkur út.

Við áttum flug út kl 17:15 sem okkur fannst mjög góður tími þar sem flugið var 8 tímar og við hugsuðum með okkur að hún myndi þá sofa mest megnis af ferðinni. Við gáfum Önju pela á leiðinni upp í loftið svo hún fengi ekki í eyrun. Hún sofnar á leiðinni upp eftir pelann en vaknar svo aftur eftir ca hálftíma. Fyrstu tímarnir gengu vel en svo fer hún að kvarta mikið og togar í eyrun.

Ein flugfreyjan þarna nefndi það við okkur að hún væri barnahjúkka svo ég pikka í hana þegar ég sé hana næst labba framhjá okkur og Anja var á garginu. Ég spyr hvað ég geti gert til þess að láta henni líða betur og hún ráðleggur mér að gefa henni stíl. Eftir ca klukkutíma er Anja ennþá sárkvalin og nær ekkert að sofna. Ég stend upp með hana og rugga henni en ekkert virðist virka. Flugfreyjan kemur aftur til okkar og spyr hvort hún megi fá að halda aðeins á henni. Hún tekur hana þétt upp að sér og viti menn Anja sofnar í fanginu á henni á 2 sek. DRAUMA FLUGFREYJA. Restin af fluginu gekk svo vel eftir það.

Þessir 16 dagar úti voru æði og Anja naut sín í botn í sólinni (Þó hún hafi ekki fengið að vera mikið í sólinni) Við pössuðum okkur á að hafa hana í langerma samfellum og með sólhatt, ef eitthvað sást í húðina þá settum við sólarvörn. Við fórum í allskonar garða og tívolí og versluðum örlítið, samt ekki mikið þar sem eina sem var til voru sumarföt sem henta okkur ekki vel á íslandi.

Það eina sem ég get "kvartað" yfir er að það er mjög erfitt að vera með pela barn þarna úti. Það er mjög lítið um örbylgjuofna og heitt vatn í krönum í görðunum og verslunum þarna. Við vorum oft í basli við að gefa henni að drekka. En náðum samt sem áður alltaf að redda okkur.

Eftir nokkra daga úti fórum við að halda að Anja gæti verið með eyrnabólgu, við ætluðum með hana til læknis en startkostnaðurinn úti var í kringum 30.000kr því við erum ekki bandarísk. Svo ég ákvað að hafa samband við hjúkrunarfræðing heima og eina sem hún gat ráðlagt mér var að passa að hún sofi ekki flöt heldur með smá upphækkun undir höfuðið og gefa henni stíl. (Þegar við komum heim fórum við svo með hana til læknis og þá var hún með bullandi eyrnabólgu og fékk sýklalyf).

Flugið heim var klukkan 19:00 sem er mjög góður tími að okkar mati. Fluginu seinkaði um ca hálftíma sem var þá bara ennþá betra því þá styttist enn meira í svefntímann hennar Önju. Þegar við fórum í loftið gaf ég henni eins og áður pela og hún sofnar strax á leiðinni upp og svaf alla leiðina heim, vaknaði ekki einu sinni í millitíðinni en vaknaði svo akkúrat þegar vélin byrjaði að lækka flugið. Þannig ferðin heim var algjör draumur.

Endum þetta á nokkrum myndum frá ferðinni.

Karen Mjöll


YKKUR ER VELKOMIÐ AÐ FYLGJAST MEÐ OKKUR HÉRNA!

  • Black Instagram Icon

@MAMIITA_COM

  • Black Snapchat Icon

@MAMIITA.COM

RECENT POST