Hildur - Jólatrít

Mér finnst svo hlýlegt að gefa heimatilbúin jólatrít, hvort sem þau séu í formi matar, drykkjar eða einhvers annars. Síðustu ár hef ég verið dugleg við að leyfa lítilli heimatilbúnni gjöf að fylgja með jólapakkanum eða fyrir jólaleynivininn og hér eru nokkrar hugmyndir:

Karamellupopp

Ég sýndi frá því um daginn á Snapchat þegar ég gerði karamellupopp sem slær alltaf í gegn – mun setja uppskriftina af því fljótlega hér inn. Ég pakkaði því svo inn í glæran poka ( ég notaði kökuskreytingarpoka því hann var akkúrat í laginu eins og ég vildi) og festi á litlar jólakúlur og blóm.

Heitt súkkulaði Þegar ég var í Genf fyrir nokkrum árum smakkaði ég svona heitt súkkulaði í fyrsta skipti en þá kemur súkkulaðið á priki og heit mjólk í bolla. Súkkulaðið svo sett útí og látið bráðna saman í heitt súkkulaði. Mér fannst hugmyndin ótrúlega sniðug og hægt er að útfæra hana á ýmsa vegu. Ég bræddi suðusúkkulaði og setti í klakaform og inn í frysti. Þegar súkkulaðið var farið að harðna tók ég prikin sem ég keypti í Sostrene Grene og stakk þeim í og muldi Bismark brjóstsykur yfir. Svo setti ég þau aftur í frysti þar til súkkulaðið var orðið alveg hart. Hægt væri að gera með sjávarsalti og karamellu, bæta við sykurpúðum , piparkökumulningi eða í raun hverju sem er og pakka inn í fallegar umbúðir.

Ristaðar möndlur Er eitthvað jólalegra en að finna ilminn af nýristuðum jólamöndlum? Ég held ekki. Ég tók þátt í þessu skemmtilega verkefni með WOW air í fyrra þar sem við gáfum gestunum okkar ristaðar möndlur og þær eru það besta sem ég veit.

Uppskriftin er einföld:

1/2 Bolli vatn 1 Bolli sykur 1 Matskeið kanill 2 Bollar möndlur Vatni, sykri og kanil blandað saman á miðlungsheitri pönnu og hitað þar til suða kemur upp. Möndlum bætt útí og hrært þar til vökvinn hefur gufað upp. Dreift úr möndlunum og þær látnar standa í ca 15 mínútur til að kólna.

Jólabjór Mamma gaf fjölskyldunni þessa mega krúttlegu bjóra ein jólin – sæt gjöf með pökkunum og auðveld í framkvæmd. Það sem þarf fyrir föndrið eru pípuhreinsar sem fást í öllum föndurbúðum í mörgum litum, augu og litla dúska/rautt blað fyrir nef.

Það er auðvitað endalaust til af skemmtilegum hugmyndum til að láta fylgja með pökkunum, jólalíkjör( tekur dálítinn tíma), heimatilbúið konfekt, kökuhráefni raðað í fallegum lögum í krukku, sultur, paté, sykurhúðuð epli og margt fleira.

Ég vona að hugmyndirnar gagnist í jólastússinu!

#Jól #Jólatrít

YKKUR ER VELKOMIÐ AÐ FYLGJAST MEÐ OKKUR HÉRNA!

  • Black Instagram Icon

@MAMIITA_COM

  • Black Snapchat Icon

@MAMIITA.COM

RECENT POST