Hildur - Fæðingarsagan mín


Dásemdin mín hann Sigvaldi Freyr kom í heiminn þann 1. september 2017 þegar ég var gengin 39+2.

Ég vaknaði að morgni 30. ágúst og fannst jafnvel að legvatnið væri farið að leka en var þó alls ekki viss svo ég fór aftur að sofa. Klukkan 9 vaknaði ég aftur með sömu tilfinningu svo ég hringdi uppá deild en þetta var svo pínulítið og það kom ekkert ef ég hóstaði eða gekk um svo ljósmóðirin var ekki alveg sannfærð og sagði mér að fylgjast með þessu yfir daginn.

Dagurinn leið og mér fannst þetta enn vera svo lítið og hafði heyrt að útferðin gæti þynnst töluvert undir lokin og var eiginlega viss um það en hringdi þó uppá deild og fékk að koma í tékk. Þegar þangað var komið, kom í ljós að legvatnið var farið að leka. Ef það gerist þarf að setja konur af stað innan sólarhrings frá því að legvatnið fer að leka, vegna sýkingarhættu, svo ég fékk að fara heim og koma aftur kl 06 um morguninn.

Það er ótrúlega skrítin tilfinning að fara heim, algjörlega verkjalaus vitandi það að fæðingin muni fara af stað deginum eftir. Við Tóti fórum í búð og nestuðum okkur upp fyrir komandi átök og reyndum svo að sofa smá – sem gekk ekkert alltof vel.

31. ágúst mættum við uppá deild og ég var lögð inn og fékk fyrstu gangsetningartöfluna kl 7. Dagurinn leið og ég fann ekki fyrir neinum verkjum og tók allar töflurnar. Uppúr 20 fór ég að finna pínulítinn seyðing en þó varla neitt til þess að tala um og við búin að Scrabble-a, fara í göngutúra og horfa á næstum heila seríu af Orange is the new black.

Ég vissi að ef ekkert færi að gerast eftir síðustu töfluna þá fengi ég dripp. Klukkan 01 þann 1. september var belgurinn svo sprengdur og drippið sett af stað og ég fór loksins að finna vel fyrir verkjunum..og ekki bara vel ég var bara alveg að farast úr verkjum svo ljósan athugaði hvað ég væri komin með mikið í útvíkkun og ég var komin með EINN!!! Guð minn góður hvað ég gat ekki ímyndað mér hvernig verkirnir yrðu þá í lokin. Því næst fékk ég sterk verkjalyf sem hjálpuðu mikið og kl 4 mænudeyfingu sem var bara það besta sem hafði komið fyrir mig og ég svaf eins og steinn til 6. Þá vaknaði ég eldress og útvíkkunin komin í 9 og við náðum að hringja í mömmu sem brunaði til okkar. Ég var svo vel deyfð að ég fann enga rembingsþörf, smám saman minnkaði deyfingin svo og ég rembdist í 1 og hálfan tíma og hann kom í heiminn kl 8:18. Pilturinn var 52 cm og 3620 gr og ótrúlega fullkominn.

Við áttum yndislegan tíma saman uppá deild og hefðum ekki getað fengið betri hóp af ljósmæðrum, þær voru hver annarri yndislegri þessar ofurkonur.

#Fæðing

YKKUR ER VELKOMIÐ AÐ FYLGJAST MEÐ OKKUR HÉRNA!

  • Black Instagram Icon

@MAMIITA_COM

  • Black Snapchat Icon

@MAMIITA.COM

RECENT POST