Karen Mjöll - 6. September breyttist líf mitt


Þar sem ég hef rosalega gaman að lesa fæðingarsögur annarra þá ákvað ég að segja ykkur frá minni. Þann 6. september 2017 varð líf mitt fullkomnað. Þessi draumadís fæddist 3850gr og 55cm.

Þetta byrjaði allt saman þriðjudaginn 5. september, gengin 40+5 þegar ég vakna kl 05:00 með væga verki. Ég fer fram úr, opna app í símanum sem heitir Contraction timer og tek tímann á milli hríða. Þarna eru sirka 4-5 mínútur á milli. Eftir smá tíma á jógaboltanum mínum ákveð ég að hringja uppá deild á Selfossi til þess að vera viss um að eitthvað sé að gerast. Ljósmóðirin segir mér að reyna að leggja mig en ef það gangi ekki ætti ég að koma uppá deild um 08:00 leitið. Atli, sem vaknar kl 6:30 hafði ekki hugmynd um ástandið og var að gera sig undirbúinn fyrir vinnu ákvað að fara ekki þar sem ég var frekar verkjuð.

Klukkan 08:00 förum við uppá deild og þar tekur á móti okkur yndisleg ljósmóðir sem heitir Björk. Hún ákveður að setja mig í mónitor og sér að hríðarnar eru ekki nógu harðar svo hún gefur mér 2 parkódín og býður mér að fara heim að hvíla mig, sem ég næ ekki að gera. Klukkan 13:00 ákveð ég að fara aftur upp á deild þar sem Björk tekur aftur á móti okkur og ákveður að athuga útvíkkun sem var rétt um 2cm. Þá býður hún mér að fara heim að reyna að hvíla mig sem gengur enn og aftur ekki.

Klukkan 16:00 get ég alls ekki meira heima svo við förum aftur uppá deild. Þar tekur önnur ljósmóðir á móti okkur sem ég vil ekki nefna með nafni og bíður mér strax fæðingarherbergi. Þar bíður hún mér nálastungur sem ég vildi alls ekki þar sem ég er mjög nálahrædd en hún reynir samt að bjóða mér þær aftur og aftur sama þótt ég harðneiti, bíður mér að fá þær í bakið í staðinn fyrir andlitið. Þarna varð ég strax frekar pirruð að hún skuli ekki hlusta á mig.

Fljótlega fer ég í bað og fæ glaðloftið með, ekki í frásögu færandi þá kunni hún ekki á glaðloftið og réttir Atla blað með leiðbeiningum og biður hann um að finna út úr þessu.

Um 18:00 bið ég ljósmóðurina um að athuga útvíkkun en hún neitar og segir að hríðarnar séu svo harðar að það styttist í að ég fari að fæða. Klukkan 22 er ég gjörsamlega búin á því og enn heldur hún því fram að ég sé alveg að fara að fæða og nái því áður en hún færi heim. Vaktaskiptin áttu að vera um miðnætti.

Sem betur fer mætir næsta ljósmóðir fyrr í vinnuna og er komin um 23:00, hún kemur inn í herbergi og ég sé að þetta er hún Björk. VÁ hvað hún bjargaði kvöldinu. Þarna gat ég ekki stjórnað líkamanum mínum, kipptist til og titraði stanslaust. Hún sá hversu þreytt og kvalin ég var og ákvað að athuga útvíkkun.Hún var BARA 3-4cm. Þá tekur hún þá ákvörðun að senda mig með sjúkrabíl í bæinn til þess að fá mænudeyfingu því þetta gangi ekki nógu vel. Hún var svo yndisleg að koma með mér í bílinn, án hennar hefði ég ekki getað þetta. (Atli fór á bílnum okkar svo við kæmumst aftur heim)

Þegar við komum á landspítalann taka yndislegar ljósmæður á móti mér og kalla á svæfingalækni sem setur upp mænudeyfingu. Þvílík himnasending! Hún bjargaði mér alveg. Ég næ loksins að slaka á og leggja mig fyrir komandi átök.

Útvíkkunin gengur frekar hægt yfir nóttina og mér er gefið dripp í æð og svo seinna er belgurinn sprengdur. Það er kominn nýr dagur og ég get ekki beðið eftir að klára þetta.

Klukkan 10:20 er útvíkkunin 7-8cm. Loksins fer ég að fá dömuna mína í hendurnar.

Það var ekki nema nokkrum mínútum seinna sem ég fæ rembingsþörf. 45 mínútur af rembing og litlan mín kemur í heiminn 11:31.

Þetta var kannski ekki draumafæðing en þegar til baka er litið situr bara eftir jákvæð upplifun í hausnum á mér. Ég hefði aldrei getað þetta án Atla, hann stóð mér við hlið allann tímann og brosti í gengum þetta allt með mér.

Karen Mjöll

#Fæðing

YKKUR ER VELKOMIÐ AÐ FYLGJAST MEÐ OKKUR HÉRNA!

  • Black Instagram Icon

@MAMIITA_COM

  • Black Snapchat Icon

@MAMIITA.COM

RECENT POST